Færsluflokkur: Bloggar
11.6.2012 | 12:45
Frístundaávísanir fyrir börn og unglinga
voru sannarlega gott framtak - en reglurnar eru undarlegar.
Ekki er hægt að nýta þær nema borgað sé fyrir lágmark 10 vikna íþróttaástundun (eða aðra frístundaiðkun).
Dóttir mín var að byrja á cross-fit námskeiði hjá World class. Þetta er 4 vikna námskeið - æft þrisvar í viku. Þótt hún tæki tvö námskeið saman, er ekki hægt að nota ávísunina upp í námskeiðskostnað, þrátt fyrir að þá væri hún að mæta á 24 æfingar. Aftur á móti ef hún æfði t.d. dans, einu sinni í viku í 12 vikur væri hægt að nota ávísunina upp í greiðslu.
Það var athyglisvert að hlusta á samtal tólf ára vinkvenna í morgun um þessi mál. Ég hafði það á orði að þegar ég var á þeirra aldri þurfti ekki að borga til að æfa handbolta (sem ég gerði í 10 ár); heldur var þakkað fyrir að krakkar vildu koma og spila með. Þá segir ein þeirra: já, það er kannski ekkert skrýtið að íslenskir krakkar séu að verða með þeim þyngstu í heiminum! Síðan ræddu þær þetta sín á milli um stund og voru greinilega meðvitaðar um umræðuna sem átt hefur sér stað í fjölmiðlunum upp á síðkastið. Án þess að ég nefndi það einu orði tengdu þær saman þyngdaraukningu barna við verri fjárhagsstöðu foreldra. Meira að segja heyrði ég þær segja "...já og svo er sko óholli maturinn oft miklu ódýrari en þessi hollari".
Er ekki öll hreyfing af hinu góða? Er ekki mál til komið að endurskoða reglurnar varðandi notkun frístundaávísana? Það eru ekki öll börn sem vilja æfa hópíþróttir (þar sem æfingar eru jú lengur en í 10 vikur). Með rýmkuðum notkunarreglum á þessum annars ágætu ávísunum væri hægt að stuðla að aukinni hreyfingu barna og unglinga.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.9.2011 | 01:05
Barnabækur - útdautt fyrirbæri, eða vanmetinn fjársjóður?
Rakst á meðfylgjandi mynd við tiltektir í tölvunni. Hún er tekin um páskana og þegar ég horfði á dæturnar svona niðursokknar í tölvurnar varð mér hugsað til pistils eftir Gerði Kristnýju sem ég las fyrr í kvöld á www.visir.is sem hún kallar Bókmenntasorgin.
Dætur mínar eru fæddar á árunum 1985 - 2000. Hér á heimilinu eru til barnabækur í stöflum fyrir alla aldurshópa, ekki aðeins frá þessum árum, heldur frá því ég var lítil og stalst til að lesa fram eftir nóttu með vasaljós undir sænginni; Ævintýrabækurnar, Fimmbækurnar Nancybækurnar, Öddubækurnar og allar hinar.
Ég velti því oft fyrir mér hvort ég eigi ekki að selja eða hreinlega gefa allar þessar barnabækur, sem virðast gera lítið annað en safna ryki núorðið. Því miður hafa afleggjararnir ekki erft lestraráhugann, nema ef vera skyldi sú yngsta; það er bara svo margt annað sem fangar hugann. Ætli ég haldi ekki í bækurnar aðeins lengur - hver veit nema bókalestur verði einhvern tíma "in" aftur. Eða hvað?
Einu sinni dundaði fólk sér við lestur og spilamennsku á frídögum eins og jólum og páskum. Nú er það facebook, youtube, þáttaáhorf, leikir o.s.frv. - allt á tölvu/flatskjánum.
Ég er sjálf búin að eiga Kindle rafbók í nokkur ár, sem ég nota mikið. Hún kemur samt aldrei í staðinn fyrir þá yndislegu upplifun að lesa góða íslenska bók um jólin!
Ætli foreldrar framtíðarinnar lesi fyrir börnin fyrir svefninn - af Ipad?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.12.2010 | 01:07
Stálið fjarlægt - Lokakaflinn í Nuss-sögu Heiðdísar Maríu
Við mættum á Barnadeild Landspítalans kl. 8:00 þann 7. des. Fljótlega varð ljóst að aðgerð yrði ekki framkvæmd fyrr en um hádegið. Fröken HM lagði sig því aftur og náði að hvíla sig, meðan við foreldrarnir og Elín (sem fékk frí í skólanum til að vera nálægt systur sinni meðan á þessu stóð og Guðný, sem kom seinna) biðum á setustofunni.
Beðið eftir aðgerð.
Undir hádegi var skvísunni svo rúllað í rúmi eftir "leggöngunum" út í aðalbyggingu þar sem skurðstofur eru. Starfsmaður sem vinnur við að flytja sjúklinga svona milli staða togaði rúmið svo hratt að mér datt í hug hvort ekki væru hraðatakmarkanir á sjúklingaflutningum (ég er ekki að grínast - Ella þurfti að hlaupa og við Guðný nánast skokka til að halda í við ferðina á rúminu og Bjarki sem var við höfuðgaflinn og hefði átt að ýta var eiginlega togaður með)
Á leið á skurðstofuna
Pabbinn fylgdi henni alla leið inn að skurðstofu en við mæðgur biðum frammi á meðan. Skemmtum okkur reyndar aðeins við myndatöku, þar sem systurnar túlkuðu þessar lokuðu dyr með ýmsum svipbrigðum.
Óviðkomandi bannaður aðgangur
Aðgerðin tók um klukkustund og næst sáum við Heiðdísi á vöknun. Hún fann ansi mikið til í bringunni og fékk verkjalyf, bæði í æðalegg og töfluformi. Á vöknun vorum við í ca. 2 tíma og var m.a. tekin röntgenmynd. Það lá drengur í rúmi við hliðina og hann fékk "svuntu" yfir sig meðan á myndatöku stóð en foreldrar hans og við öll send fram á gang.
Aftur var svo Heiðdísi rennt í rúminu til baka yfir á Barnadeild og þar inn á stofu 40. Tvímenningsstofa, en sem betur fer var enginn annar þar í innlögn. Hún dormaði svo áfram, enda nývöknuð úr svæfingu og með morfín í æðunum. Matarlyst sama og engin. Guðný fór heim fljótlega og Bjarki um kvöldmatarleytið.
Ég fór á Metró og náði í borgara handa Heiðdísi - og Ellu og Álfrúnu sem var komin í heimsókn - en það vakti ekki mikla hrifningu spítalamaturinn sem í boði var. Kiddi kom með DVD myndir sem þau horfðu svo á í sameiningu unglingarnir, en Signý var þá líka komin í heimsókn.
Heiðdís María partíljón - alltaf umkringd fólki.
Þegar allir gestir voru farnir var mín ansi þreytt - en orðin svöng!! Ég fann brauðmeti í býtibúrinu handa henni sem hún hafði ágæta lyst á. Svo sofnuðum við allar mæðgurnar!
Útskrift var um hádegi daginn eftir. Henni sagt að hún mætti fljótlega fara að gera þá hluti sem hún treysti sér til, en þó ekki fara í bað eða sund alveg á næstunni. Skurðirnir eru saumaðir með saumum sem eyðast og yfir er "second skin" plástur, sem losnar með tímanum.
Það var svo mikið kapp í minni að hún dreif sig í skólann á fimmtudagsmorgninum til að taka próf. Svo lengdist dagurinn, þar sem í næsta tíma var einhver mynd sem varð að horfa á fyrir eitthvað verkefni og svo var hátíðamatur í mötuneytinu í hádeginu. - Hún var auðvitað gjörsamlega búin á því þegar hún kom heim og fór ekkert í skólann á föstudeginum.
Núna 5 dögum eftir aðgerð er daman öll að koma til, fór meira að segja aðeins í vinnuna um helgina. Það er móðirin sem er búin að liggja "flöt eins og skata" frá því við komum heim af spítalnum, undirlögð af flensu og því lítið getað stjanað við unglinginn sinn. Ég var byrjuð á þessari bloggfærslu upp á spítala en hún sendist hér með myndskreytt fyrir ykkur kæru vinir og vandamenn sem fylgst hafið með þessu ferðalagi litlu hetjunnar minnar.
ps. Við fengum að eiga stálplötuna. Kannski maður láta bara ramma hana inn til minningar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.12.2010 | 12:25
Þá er komið að því
að fjarlægja stálspöngina úr brjóstkassa Heiðdísar Maríu. Aðgerðardagur hefur verið ákveðinn 7. desember.
Það stóð fyrst til að gera þetta ekki fyrr en eftir áramót, en þar sem daman hefur verið með ansi mikla verki um tíma við festingar öðrum megin, ákvað Bjarni læknir að drífa bara í þessu - enda þrjú ár liðin, sem er sá tími sem miðað er við. Þessi aðgerð er eins og gefur að skilja töluvert minni en sú fyrri og þarf hún jafnvel ekki að vera nema eina nótt á spítalanum. Svo kemur bara í ljós hversu langan tíma tekur að jafna sig á eftir.
Þessi mynd er tekin í desember 2007, þegar Heiðdís settist upp í fyrsta skipti eftir aðgerðina.
Það er kannski þversögn í því - en Heiðdís María hlakkar þvílíkt til að fara í þessa aðgerð ... og nú er bara tæp vika í það.
Litla 12 ára stelpan sem fór í aðgerðina 2007 er orðin 15 ára unglingur
Það er því alveg ljóst að upphaf aðventunnar mun ætíð minna á Barnaspítalann... læt ykkur fylgjast með.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.9.2010 | 15:07
Hvað liggur að baki
Icelandair fullt af lofti | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.6.2010 | 23:50
Þingvallasýning í Ráðhúsinu
Föstudaginn 11. júní opnar í Tjarnarsal Ráðhússins ljósmyndasýningin Þingvellir í Fókus. Þar eru til sýnis og sölu 52 myndir sem allar eru teknar á Þingvöllum og við Þingvallavatn. Flestar eru úr þjóðgarðinum m.a. má sjá myndir af Valhöll á mismunandi árstímum og ýmsar útgáfur af Öxarárfossi.
Það eru 27 félagar í Fókus, félagi áhugaljósmyndara, sem eiga myndir á þessari sýningu, en þetta er 19 sýning félagsins, sem var stofnað 1999. Það er ótrúleg fjölbreytni í myndum á sýningunni, þrátt fyrir að allar séu þær teknar á þessum sama stað. Nálgun ljósmyndaranna á sama viðfangsefni er mjög mismunandi en lagt var upp með að allar myndirnar væru teknar í grennd við Þingvallavatn.
Ég hvet þig til að líta við í Ráðhúsinu og skoða sýninguna okkar. Einnig að benda erlendum ferðamönnum á hana. Sl. sumar, á 10 ára afmæli félagsins, héldum við veglega sýningu sem bar yfirskriftina Allt í Fókus. Það var gríðarleg aðsókn og erlendir ferðamenn sýndu myndum úr íslensku náttúrunni mikinn áhuga.
Myndirnar mínar á sýningunni:
Þessi mynd er af Sandey, tekin frá Grafningsveginum.
Haustlitir. Tekin í Hestvík við sumarbústað fjölskyldunnar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
30.4.2010 | 14:19
Þululaust RÚV!
Gott kvöld góðir landsmenn.
Einu sinni var ég þula hjá Sjónarpinu. Nær allan níunda áratug 20. aldarinnar kynnti ég dagskrána fyrir landsmönnun. Þegar ég hóf störf var ekkert sjónvarp allan júlímánuð! Það var heldur ekkert sjónvarp á fimmtudögum "í gamla daga". Ég man eftir auglýsingum um fyrstu myndbandstækin sem hvöttu fólk til að taka upp dagskrána og horfa svo á hana á fimmtudagskvöldum. Dagskrá kvöldsins var líka "örstutt" þegar ég byrjaði að kynna hana, en lengdist fljótlega á árunum mínum við kynningar. Það var heldur engin samkeppni, fyrr en 1986 þegar Stöð 2 hóf útsendingar.
Þulurnar voru heimilis"vinir" allra landsmanna. Hvert einasta mannsbarn þekkti á okkur andlitið. Enn í dag fæ ég spurninguna "varst ekki einusinni þula?" Samt eru 20 ár síðan ég kynnti síðast dagskrána. Ég held að ég sé yngsta þulan sem ráðin hefur verið, rétt rúmlega tvítug og það voru að mig minnir um áttatíu manns sem fóru í inntökupróf og viðtal fyrir starfið :) Starfið var og hefur alltaf verið eftirsóknarvert. Laun voru samt alls ekkert góð. Þetta var bara svo "þægileg" aukavinna.
Þegar ég frétti að til stæði að hætta með þulurnar var fyrsta hugsunin "jæja, á loksins að láta verða af því". Það var nefnilega mikið talað um þetta þegar ég var þula. Meira að segja átti að láta reyna á það. Okkur var öllum sagt upp - en svo var hætt við og við beðnar að koma aftur. Sumar tóku því tilboði - en aðrar okkar sögðu nei takk. Þá byrjaði td. Rósa Ingólfs að kynna og setti sinn skemmtilega, umdeilda svip á kynningarnar. Það voru eingöngu konur í þessu starfi öll árin sem ég var þarna. Við urðum ágætis vinkonur og hittumst ásamt fleiri góðum samstarfskonum í mörg ár eftir að við hættum að kynna. Þuluárin hjá RÚV voru alveg yndisleg. Fullt af frábæru samstarfsfólki; margt hafði verið hjá Sjónvarpinu frá upphafi. Það var nánast eins og stórfjölskyldu-samkunda þegar við hittumst utan vinnunnar.
Það er gaman að fylgjast með umræðunni í fjölmiðlunum núna á þessum tímamótum. Ég hlustaði t.d. á viðtal við Katrínu og Rósu Ingólfs í morgunútvarpinu í morgun. Allir virðast hafa skoðanir á þessu máli - með eða á móti. Ég er hissa á að RÚV skuli ekki hafa hætt með þulur fyrir löngu. Fyrstu árin fólst þularstarfið ekki eingöngu í því að lesa dagskrána - tæknin var ekki upp á marga fiska miðað við í dag og oft þurftum við að lesa alls kyns tilkynningar sem berast þurftu landsmönnum. Rósa sagði í viðtalinu í morgun að við ættum að halda sérstöðu okkar og halda áfram með þulurnar, heimilisvini margra landsmanna. Mín skoðun er að löngu sé kominn tími á kveðjustund. Mæli með því að það fjármagn sem sparast við brotthvarf þulanna verði nýtt til innlendrar dagskrárgerðar.
Dagskránni er lokið, góða nótt.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
5.1.2010 | 09:50
Gleðilegt nýtt ár
Það er nú einhver veginn þannig að bloggið hefur horfið ofaní fésbókarfenið sem maður er farinn að svamla um í allt of mikið. Ég til dæmis stofnaði þetta blogg til að leyfa vinum og vandamönnum að fylgjast með framgangi mála hjá dótturinni þegar hún gekkst undir stóra og mikla aðgerð fyrir tveimur árum. Eins og fjölmiðlastaðan er í dag gæti ég sent út fréttir af því í beinni á fésbókinni. Svo er daman að sjálfsögðu líka þar inni eins og flestir unglingar á landinu virðast vera. Facebook er hins vegar ekki eins "varanlegt" og bloggið - það er næstum eins og talað mál, líður hjá svo hratt að ef þú ert ekki að "hlusta" missirðu af umræðunni. Þetta er samt sem áður skemmtilegur miðill, en reynslan ein getur dæmt um hversu langlífur hann verður. Einu sinni var td. enginn maður með mönnum nema vera á MSN.
Annars er allt við það sama hér í Mosó. Skólinn byrjaður eftir jólafríi sem var eitthvað svo ótrúlega fljótt að líða. Ég er að fara í vetrarfrí eftir nokkra daga, sem á að nota til að klára síðasta verkefnið í fjarnáminu, taka myndir og vinna í myndum, auk ótal annarra hluta - eins og venjulega!.
Ætla að leyfa jólunum að hanga uppi þar til um helgina - og mæli eiginlega með því að fólk leyfi ljósunum að loga eitthvað frameftir ári!
Bestu óskir um gleðilegt nýtt ár.
ps. Það er mjög meðvituð ákvörðun min að minnast ekki EINU orði hér á pólitík, hvorki Icesave né annað.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
12.9.2009 | 02:11
Hinn óendanlegi kvenleiki
er án efa að gefa barni brjóst, ásamt meðgöngu og fæðingu. Þrátt fyrir alla jafnréttisbaráttu og -umræðu er staðreyndin sú að kynin eru ekki og munu aldrei verða jöfn. Það er hins vegar gaman að velta því fyrir sér hvað er kvenleiki og/eða karlmennska. Túlkunin fer eftir því hver á í hlut og í hvernig þjóðfélagi viðkomandi býr.
Þetta er myndin mín á ljósmyndasýningunni Kvenleiki og Karlmennska sem verður í Kringlunni 12.-26. september. Móðir og barn í mildri dagsbirtunni sýna hinn óendalega kvenleika sem ég kaus að hafa í svart/hvítu.
Ég mæli eindregið með því að þú skoðir sýninguna og allar hinar 55 myndirnar sem sýna kvenleika og karlmennsku með augum íslenskra kvenna.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
4.9.2009 | 11:52
Kíktu í Kringluna 12.-26. september
og skoðaðu ljósmyndir eftir 56 íslenskar konur sem sýna kvenleika og karlmennsku.
http://www.flickr.com/groups/photos-by-icelandic-women/
Ég stofnaði þennan hóp í nóvember 2006. Í upphafi var hann frekar fámennur, en fljótlega fór meðlimum að fjölga og í dag erum við rúmlega 600. Konurnar eru á öllum aldri, allt frá grunnskólastúlkum upp í ellilífeyrisþega. Allar hafa óbilandi áhuga á ljósmyndun, sem tengir okkur saman óháð aldri og búsetu, en margar kvennanna búa víðsvegar um heiminn. Nokkrar eru lærðir ljósmyndarar eða eru í námi, en flestar eru áhugaljósmyndarar. Innan hópsins er starfandi öflug ferðanefnd og við förum saman í skipulagðar ljósmyndaferðir nokkrum sinnum á ári. Þær eru auglýstar á heimasíðu grúppunnar, þar sem einnig fara oft fram fjörlegar og gagnlegar umræður um ljósmyndatengd mál.Fljótlega eftir að hugmyndin að þessari ljósmyndasýningu kom upp varð ljóst að margar vildu vera með. Þátttakendur eru þverskurður af konunum í hópnum; á öllum aldri, búsettar um allt land og erlendis.
Fyrsta ljósmyndaferð Konugrúbbunnar
Þema sýningarinnar markast nokkuð af því að hér er á ferðinni konusýning. Við vildum þó ekki vera það sjálfhverfar að sýna einungis kvenleika þannig að karlmennskan var tekin með J. Það er mikil fjölbreytni í myndavali en myndirnar sýna túlkun ljósmyndarans á hugtökunum kvenleiki og karlmennska. Í sumum myndanna er þessum hugtökum blandað mjög skemmtilega saman.
Vetrarferð 2009
Þetta er fyrsta samsýning hópsins og jafnframt fyrsta opinbera ljósmyndasýningin sem margar þessara kvenna taka þátt í en við köllum okkur stundum Flikkrurnar þar sem við tengjumst í gegnum flickr.com.
Í Grafningnum sumarið 2008
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Gúnna
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar