Færsluflokkur: Uppeldi
11.6.2012 | 12:45
Frístundaávísanir fyrir börn og unglinga
voru sannarlega gott framtak - en reglurnar eru undarlegar.
Ekki er hægt að nýta þær nema borgað sé fyrir lágmark 10 vikna íþróttaástundun (eða aðra frístundaiðkun).
Dóttir mín var að byrja á cross-fit námskeiði hjá World class. Þetta er 4 vikna námskeið - æft þrisvar í viku. Þótt hún tæki tvö námskeið saman, er ekki hægt að nota ávísunina upp í námskeiðskostnað, þrátt fyrir að þá væri hún að mæta á 24 æfingar. Aftur á móti ef hún æfði t.d. dans, einu sinni í viku í 12 vikur væri hægt að nota ávísunina upp í greiðslu.
Það var athyglisvert að hlusta á samtal tólf ára vinkvenna í morgun um þessi mál. Ég hafði það á orði að þegar ég var á þeirra aldri þurfti ekki að borga til að æfa handbolta (sem ég gerði í 10 ár); heldur var þakkað fyrir að krakkar vildu koma og spila með. Þá segir ein þeirra: já, það er kannski ekkert skrýtið að íslenskir krakkar séu að verða með þeim þyngstu í heiminum! Síðan ræddu þær þetta sín á milli um stund og voru greinilega meðvitaðar um umræðuna sem átt hefur sér stað í fjölmiðlunum upp á síðkastið. Án þess að ég nefndi það einu orði tengdu þær saman þyngdaraukningu barna við verri fjárhagsstöðu foreldra. Meira að segja heyrði ég þær segja "...já og svo er sko óholli maturinn oft miklu ódýrari en þessi hollari".
Er ekki öll hreyfing af hinu góða? Er ekki mál til komið að endurskoða reglurnar varðandi notkun frístundaávísana? Það eru ekki öll börn sem vilja æfa hópíþróttir (þar sem æfingar eru jú lengur en í 10 vikur). Með rýmkuðum notkunarreglum á þessum annars ágætu ávísunum væri hægt að stuðla að aukinni hreyfingu barna og unglinga.
Uppeldi | Breytt s.d. kl. 13:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.9.2011 | 01:05
Barnabækur - útdautt fyrirbæri, eða vanmetinn fjársjóður?
Rakst á meðfylgjandi mynd við tiltektir í tölvunni. Hún er tekin um páskana og þegar ég horfði á dæturnar svona niðursokknar í tölvurnar varð mér hugsað til pistils eftir Gerði Kristnýju sem ég las fyrr í kvöld á www.visir.is sem hún kallar Bókmenntasorgin.
Dætur mínar eru fæddar á árunum 1985 - 2000. Hér á heimilinu eru til barnabækur í stöflum fyrir alla aldurshópa, ekki aðeins frá þessum árum, heldur frá því ég var lítil og stalst til að lesa fram eftir nóttu með vasaljós undir sænginni; Ævintýrabækurnar, Fimmbækurnar Nancybækurnar, Öddubækurnar og allar hinar.
Ég velti því oft fyrir mér hvort ég eigi ekki að selja eða hreinlega gefa allar þessar barnabækur, sem virðast gera lítið annað en safna ryki núorðið. Því miður hafa afleggjararnir ekki erft lestraráhugann, nema ef vera skyldi sú yngsta; það er bara svo margt annað sem fangar hugann. Ætli ég haldi ekki í bækurnar aðeins lengur - hver veit nema bókalestur verði einhvern tíma "in" aftur. Eða hvað?
Einu sinni dundaði fólk sér við lestur og spilamennsku á frídögum eins og jólum og páskum. Nú er það facebook, youtube, þáttaáhorf, leikir o.s.frv. - allt á tölvu/flatskjánum.
Ég er sjálf búin að eiga Kindle rafbók í nokkur ár, sem ég nota mikið. Hún kemur samt aldrei í staðinn fyrir þá yndislegu upplifun að lesa góða íslenska bók um jólin!
Ætli foreldrar framtíðarinnar lesi fyrir börnin fyrir svefninn - af Ipad?
Uppeldi | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.9.2009 | 02:11
Hinn óendanlegi kvenleiki
er án efa að gefa barni brjóst, ásamt meðgöngu og fæðingu. Þrátt fyrir alla jafnréttisbaráttu og -umræðu er staðreyndin sú að kynin eru ekki og munu aldrei verða jöfn. Það er hins vegar gaman að velta því fyrir sér hvað er kvenleiki og/eða karlmennska. Túlkunin fer eftir því hver á í hlut og í hvernig þjóðfélagi viðkomandi býr.
Þetta er myndin mín á ljósmyndasýningunni Kvenleiki og Karlmennska sem verður í Kringlunni 12.-26. september. Móðir og barn í mildri dagsbirtunni sýna hinn óendalega kvenleika sem ég kaus að hafa í svart/hvítu.
Ég mæli eindregið með því að þú skoðir sýninguna og allar hinar 55 myndirnar sem sýna kvenleika og karlmennsku með augum íslenskra kvenna.
Uppeldi | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
24.1.2009 | 01:20
Unglingurinn Heiðdís María
hefur það alveg "geggjað" gott.
Ég var búin að lofa ykkur "updeiti" kæru vinir, vandamenn og blogglesarar, sem fylgdust með aðgerðinni fyrir ári. Frúin frekar sein í þessu en hér kemur bloggfærsla þar sem ekkert er talað um kreppu eða pólitík
Skvísan er náttúrulega bara flottust (sjá fleiri myndir hér í fyrri færslum) Hún hefur reyndar á sl. ári 2svar fengið slæma verki í eða við festinguna á spönginni - en sem betur fer hefur það jafnað sig fljótlega (með smá hjálp frá ibofeni og panodil). Hún er búin að vera á fullu í leiklist og tekur þátt í öllum íþróttum og sundi. Var eins og dolla í stórsjó á trambolíninu í sumar, svo mikið að mér varð oft nóg um og fann hreinlega til í bringunni við að horfa á hana
Nú er 8. bekkurinn hálfnaður og henni gengur bara vel í skólanum. Nokkuð kærulaus finnst okkur foreldrunum þegar kemur að heimanáminu, en einhvernveginn kemst þetta allt inn í kollinn á henni. Eins og gengur hjá mörgum á þessum aldri er hún mjög upptekin af útlitinu og klæðaburði - litla systir á það til að kalla hana fröken meikdollu þegar verið er að rífast eitthvað.
Nú eru fermingarnar framundan og ákvað Heiðdís fyrir nokkuð löngu að hún vildi ekki fermast í kirkju. Var á tímabili á því að fermast ekkert en afturá móti hefur hún ákveðið að fermast borgaralega og sækir nú fermingarfræðslutíma hjá Siðmennt einu sinni í viku. Alveg brill fræðsla finnst mér - lífsleikni og lífsins gagn og nauðsynjar sem ætti að búa þau vel undir árin framundan. Stóri dagurinn er svo 26. apríl í Háskólabíói. Ég held að hún sé eina stelpan í skólanum sem ekki ætlar að fermast í kirkju. Í fyrstu var hún ákveðin í að sleppa veislu - og fara frekar til Flórída í frí, en sú ferð verður nú að bíða aðeins betri (og gengishagstæðari) tíma. Við stefnum að því að halda smá teiti fyrir okkar nánustu á fermingardaginn.
Heiðdís er náttúrulega komin með facebook síðu eins og þorri þjóðarinnar (og við öll í fjölskyldunni reyndar líka - nema Elín Katrín) Undirrituð á það til að gleyma sér við fésbókarlestur, sem er auðvitað ekkert annað en helv. tímaþjófur. Etv. ein ástæða þess hve ég heimsæki bloggið orðið sjaldan.
Ef þú hefur einhverjar spurningar varðandi svona aðgerð á innfallinni bringu (pectus excavatum) þá er um að gera að hafa samband. Eins bendi ég á bloggfærslur frá nóv-des 2007.
Uppeldi | Breytt 4.5.2009 kl. 00:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
8.6.2008 | 15:33
Sumarið er komið...
og nú vilja börnin fá að vera úti eins lengi og "lögin" kveða á um....eða þannig. Heiðdís María hefur minnt okkur foreldrana á það mjög reglulega undanfarnar vikur að nú megi hún sko vera úti til miðnættis á kvöldin. "Útivistarreglurnar segja til tólf" er hennar svar, þegar hún er beðin um að koma heim kl. 11. Hún er líka með það alveg á hreinu að það er árið sem skiptir málir, ekki afmælisdagurinn. Hún verður nefnilega ekki 13 ára fyrr en í desember. Auðvitað gegnir hún nú og kemur heim á þeim tíma sem henni er settur...enda ekki við hæfi að 12 ára komi heim EFTIR að mamma er sofnuð á kvöldin....
Hún Maddý blogg- og flickr-vinkona mín var að fjalla um þennan teljara í síðustu færslunni sinni og að sjálfsögðu VARÐ ég að prófa hann líka. Sniðugt dæmi.
Uppeldi | Breytt s.d. kl. 15:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
29.3.2008 | 18:57
HVAÐ ER EIGINLEGA AÐ HJÁ FÓLKI SEM GERIR SVONA??????
Elsta dóttir mín stundar nám við HÍ og sækir tíma í Ármúlanum. Hún á litla Nissan Micra bifreið. Fyrr í vetur kom hún að bílnum þannig að stór beygla var komin á bílstjórahurðina - líklegast hefur verið bakkað á hana. Í gær (föstudag) kemur hún svo að bílnum á stæðinu fyrir aftan skólann með stórskemmd á hinni framhurðinni. Það var sko enginn hurðarskellur eða aftanákeyrsla. Nei, ó nei. Það hafði einhver SPARKAÐ svona fast í hurðina. Það fer sko ekkert á milli mála þar sem vel mótar fyrir skósólanum á hurðinni. Ég læt fylgja hér með myndir af þessu.
Hvað er eiginlega að hjá fólki sem gerir svona lagað?? Er skemmdarfísn fólks engin takmörk sett? Dóttir mín er mikil rólyndismanneskja og á ekki í útistöðum við nokkurn mann. Hún var þó að vonum mikið pirruð, leið og reið, þegar hún kom heim. Því miður kallaði hún ekki til lögregluna og gaf skýrslu. Ekki að það hefði breytt nokkru. Skaðinn skeður - og sökudólgar/ur löngu flognir á brott.
Sem foreldri og uppalandi get ég ekki varist þeirri hugsun að hluti þess vanda sem blasir við okkur í þjóðfélaginu í dag er okkur - uppalendum - að kenna. Svo læra börnin sem fyrir þeim er haft. Erum við nógu dugleg að brýna fyrir börnum okkar t.d. að bera virðingu fyrir eignum sínum og annarra???? Sýnum við gott fordæmi?? Svari hver fyrir sig.
Uppeldi | Breytt s.d. kl. 19:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Um bloggið
Gúnna
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar