Stálið fjarlægt - Lokakaflinn í Nuss-sögu Heiðdísar Maríu

Við mættum á Barnadeild Landspítalans kl. 8:00 þann 7. des. Fljótlega varð ljóst að aðgerð yrði ekki framkvæmd fyrr en um hádegið. Fröken HM lagði sig því aftur og náði að hvíla sig, meðan við foreldrarnir og Elín (sem fékk frí í skólanum til að vera nálægt systur sinni meðan á þessu stóð og Guðný, sem kom seinna) biðum á setustofunni.

Á biðstofunni Elín og Bjarki

Beðið eftir aðgerð.

Undir hádegi var skvísunni svo rúllað í rúmi eftir "leggöngunum" út í aðalbyggingu þar sem skurðstofur eru. Starfsmaður sem vinnur við að flytja sjúklinga svona milli staða togaði rúmið svo hratt að mér datt í hug hvort ekki væru hraðatakmarkanir á sjúklingaflutningum (ég er ekki að grínast - Ella þurfti að hlaupa og við Guðný nánast skokka til að halda í við ferðina á rúminu og Bjarki sem var við höfuðgaflinn og hefði átt að ýta var eiginlega togaður með)

009 011

Á leið á skurðstofuna

Pabbinn fylgdi henni alla leið inn að skurðstofu en við mæðgur biðum frammi á meðan. Skemmtum okkur reyndar aðeins við myndatöku, þar sem systurnar túlkuðu þessar lokuðu dyr með ýmsum svipbrigðum.

012

Óviðkomandi bannaður aðgangur 

Aðgerðin tók um klukkustund og næst sáum við Heiðdísi á vöknun. Hún fann ansi mikið til í bringunni og fékk verkjalyf, bæði í æðalegg og töfluformi. Á vöknun vorum við í ca. 2 tíma og var m.a. tekin röntgenmynd. Það lá drengur  í rúmi við hliðina og hann fékk "svuntu" yfir sig meðan á myndatöku stóð en foreldrar hans og við öll send fram á gang.

015 016

Aftur var svo Heiðdísi rennt í rúminu til baka yfir á Barnadeild og þar inn á stofu 40. Tvímenningsstofa, en sem betur fer var enginn annar þar í innlögn. Hún dormaði svo áfram, enda nývöknuð úr svæfingu og með morfín í æðunum.  Matarlyst sama og engin. Guðný fór heim fljótlega  og Bjarki um kvöldmatarleytið.

017 

Ég fór á Metró og náði í borgara handa Heiðdísi - og Ellu og Álfrúnu sem var komin í heimsókn - en það vakti ekki mikla hrifningu spítalamaturinn sem í boði var. Kiddi kom með DVD myndir sem þau horfðu svo á í sameiningu unglingarnir, en Signý var þá líka komin í heimsókn.

019  020.CR2

Heiðdís María partíljón - alltaf umkringd fólki.

Þegar allir gestir voru farnir var mín ansi þreytt - en orðin svöng!! Ég fann brauðmeti í býtibúrinu handa henni sem hún hafði ágæta lyst á. Svo sofnuðum við allar mæðgurnar!

Útskrift var um hádegi daginn eftir. Henni sagt að hún mætti fljótlega fara að gera þá hluti sem hún treysti sér til, en þó ekki fara í bað eða sund alveg á næstunni. Skurðirnir eru saumaðir með saumum sem eyðast og yfir er "second skin" plástur, sem losnar með tímanum.

Það var svo mikið kapp í minni að hún dreif sig í skólann á fimmtudagsmorgninum til að taka próf. Svo lengdist dagurinn, þar sem í næsta tíma var einhver mynd sem varð að horfa á fyrir eitthvað verkefni og svo var hátíðamatur í mötuneytinu í hádeginu. - Hún var auðvitað gjörsamlega búin á því þegar hún kom heim og fór ekkert í skólann á föstudeginum.

Núna 5 dögum eftir aðgerð er daman öll að koma til, fór meira að segja aðeins í vinnuna um helgina. Það er móðirin sem er búin að liggja "flöt eins og skata" frá því við komum heim af spítalnum, undirlögð af flensu og því lítið getað stjanað við unglinginn sinn. Ég var byrjuð á þessari bloggfærslu upp á spítala en hún sendist hér með myndskreytt fyrir ykkur kæru vinir og vandamenn sem fylgst hafið með þessu ferðalagi litlu hetjunnar minnar.

ps. Við fengum að eiga stálplötuna. Kannski maður láta bara ramma hana inn til minningar.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Gúnna

Höfundur

Gúnna

 

www.flickr.com/gudmunda

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • 014
  • 014
  • 017
  • 020.CR2
  • 019

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband