Færsluflokkur: Bloggar

Aðgerð búin - líðan eftir atvikum góð

Þessi orð eru rituð í aðstandendaherberginu á Barnaspítalanum.

Aðgerðin búin og ALLT GEKK VEL! Smile

 

Beðið eftir aðgerðVið foreldrarnir mættum með Heiðdísi klukkan 7:20 í morgun. Aðgerðin var framkvæmd um tveimur tímum seinna og gekk í alla staði mjög vel að sögn Bjarna læknis. Skvísan var komin inn á vöknun um ellefuleytið og vorum við þar í um 5 klst. Hún vaknaði fljótt eftir svæfinguna og  var að vonum með töluverða verki. Átti líka nokkuð erfitt með andardrátt.

 Hér er Heiðdís að bíða eftir að fara í aðgerðina

                                                      Með Heiðlóu eftir aðgerðina

Eftir aðgerðÞað var yndislegur hjúkrunarfræðingur sem heitir Heiðlóa sem fylgdist vel með henni allan tímann. Um hálf fimm í dag var svo keyrt til baka út á barnadeild. Eftir að hafa verið tengd við allar þær slöngur sem henni fylgdu fékk mín ristað brauð og djús! Síðan þá hefur hún að mestu mókað. Finnur ansi mikið til, sérstaklega í kringum skurðina og fær með reglulegu millibili verkjalyf. Bringan lítur alveg ljómandi vel út. Wink

Við mæðgurnar verðum hér saman i nótt. Pabbi er heima með systrunum. Meira síðar.


Þá er komið að því

Fórum í morgun á spítalann í lokaundirbúning. Það var dregið blóð úr Heiðdísi og síðan kom Bjarni læknir og ræddi við okkur. Aðgerðin verður framkvæmd í fyrramálið, föstudag.

IMG_2277

 

Við fengum að skoða stofuna sem Heiðdís verður á eftir aðgerðina. Hún er mjög ánægð með að fá einkastofu (við foreldrarnir líka). Ólöf deildarhjúkrunarfræðingur sýndi okkur aðstöðuna og er hún mjög fín. Stór og fín stofa með sófa fyrir aðstandendur til að sofa á, sjónvarpi og ýmsum afþreyingartækjum, td. DVD og playstation. Ólöf sagði Heiðdísi að hún mætti bara hreiðra um sig eins og hún vildi á stofunni, þá daga sem hún dvelur.

Heimsóknin í morgun tók um eina klukkustund. Eftir það  fór daman í skólann, að öllum líkindum síðasti skóladagurinn á þessu ári. Það er árshátíð hjá 7. bekk í kvöld og mín ætlar að sjálfsögðu að mæta! Bara fínt að hafa eitthvað fyrir stafni og dreifa huganum. Síðan tekur við fasta frá miðnætti og svo er mæting snemma í fyrramálið.

Næstu fréttir að lokinni aðgerð Smile

collage3

Heiðdís lærði meðan við biðum

Tilbúin fyrir blóðprufuna

Dælt í nokkur glös

Bjarni skoðar Heiðdísi


Afmælið

Þegar maður er að verða 12 ára og framundan er spítalalega á afmælisdaginn er auðvitað bara eitt í stöðunni. Halda uppá afmælið fyrirfram. Það hefur Heiðdís nú gert - í tvígang. Skólafélagarnir komu í heljarinnar kjallarapartí. Snakk og nammi, gos og pizzur - og horft á mynd. GG, eins og Heiðdís orðar það (fyrir þá sem ekki vita þýðir það geggjað gaman).Grin

Síðan var 2. í afmæli á laugardaginn. Þá bauð hún tveimur æskuvinkonum, Eddu og Írisi. Þær fóru í  Keiluhöllinna, þar sem afmælisbarnið náði hæsta skori! (Elín litla systir fékk að vera með og var næstum búin að slá þeim öllum við, híhí) Síðan lá leiðin í Smáralindina. Þar var borðað á Burger King og að lokum  fór hin heilaga þrenning í bíó. Mikið stuð og stemmning, kjaftað og hlegiðLoL.

Nú styttist í föstudaginn. Enn höfum við ekkert heyrt frá spítalanum - ættu að hringja í síðasta lagi á morgun (miðvikudag) til að boða okkur í lokaundirbúning á fimmtudag.

Með vinkonum                              afmælismósaík

Heiðdís, Íris og Edda í keilu.                                            Afmælisbarnið ásamt skólafélögum

 

 


Undirbúningur

Við fórum á Barnaspítalann í morgun í undirbúning fyrir aðgerðina.  Byrjað á viðtali við hjúkrunarfræðing og lækni. Reyndar ekki Bjarna sem gerir aðgerðina þar sem hann er erlendis. Þetta er heljarinnar "prósess" sem þarf að fara í gegnum og fylla út mikið af eyðublöðum. Hæð og þyngd þarf að sjálfsögðu að vera alveg á hreinu fyrir svæfinguna. Svo var tekinn blóðþrýstingur og hjartsláttur. Allt var þetta gert á fyrstu viðtalsstofunni. Síðan hófst ferðalag um undirgangana.

Heiðdís þurfti að fara í hjartalínurit, sem er í aðalbyggingunni. Viðtal við svæfingalækni var einnig þar, bara á annarri deild. Síðan aftur út á barnadeild, en þar er sérstök röntgenstofa fyrir yngstu þjóðfélagsþegnana. Allt gekk þetta vel, en það borgar sig að hafa slatta af þolinmæði með í poka í svona ferli. Síðan fengum við skoðunarferð um Barnadeildina. Þar er ma. á 1. hæð kennslustofa með öllu tilheyrandi og kennari alltaf til staðar. Einnig afþreyingarherbergi/leikherbergi. Á annarri hæðinni,  þar sem legustofurnar eru,  má ma. finna sérstakt unglingaherbergi og herbergi fyrir aðstandendur. Mjög huggulegt allt saman og rólegt og þægilegt andrúmsloft.

Eftir að hafa kvatt hjúkrunarfræðinginn á deildinni tók við annað undirgangsferðalag. Nú lá leiðin yfir í kjallara Eirbergs (gamla hjúkrunarskólahússins). Þar var frökenin mynduð í bak og fyrir og er það að beiðni læknis til að eiga fyrir og eftir myndir af henni.

Þessi heimsókn tók um 3 klukkustundir, en við þurfum að fara aftur sólarhring fyrir aðgerð. Þá verða teknar blóðprufur og væntanlega hittum við þá Bjarna Torfason lækni. Enn er ekki komin endanleg dagsetning. 30. nóvember er líklegastur.

 

 

undirbúningsheimsókn

1.Beðið í anddyri 2. Blóðþrýstingsmæling 

3. Með pabba að bíða eftir röntgenmynd 4. Risabangsi á barnadeildinni


Pectus Excavatum - Heiðdís

Þá er komið að því. Heiðdís María er að fara í aðgerð sem staðið hefur til í marga mánuði. Ég ákvað að stofna hér bloggsíðu til að færa inn framvinduna og eins fyrir þá sem vilja senda henni kveðjur og/eða hvatningarorð. Ef þú ert að lesa þetta og þekkir okkur ekki þá eru hér smá upplýsingar um Heiðdísi.

Hún er fædd 5. desember 1995. Er í 7. bekk í Varmárskóla. Er vinsæl og vinamörg en hefur þurft að ganga í gegnum erfiðleika og einelti, ma. vegna þess sem nú á að laga. Hún er með innfallna bringu og hér má lesa nánar um það:

http://www.chkd.org/HealthLibrary/Facts/Content.aspx?pageid=0376

Það var hringt frá Barnadeildinni í morgun og við boðuð í undirbúning þann 19. nóv kl. 9:20. Afturámóti er ekki hægt að fastsetja dag fyrir aðgerðina sjálfa, sem framkvæmd verður af Bjarna Torfasyni. Það fer eftir því hversu mikið er að gera á gjörgæsludeildinni hvenær Bjarni getur gert þetta. Ef öll rúm eru upptekin, hefur hann tækifæri til að gera aðgerðir á börnum, sem ekki þurfa að liggja á gjörgæslu lengi heldur eru send beint á barnadeildina. Dálítið kaldhæðnislegt: Ef öll rúm eru full á gjörgæslu getur barnið mitt farið í aðgerð! Bjarni er sá eini sem framkvæmir þessar aðgerðir hér á landi - en hann er mjög upptekinn við hjartaaðgerðir. Við hittum Bjarna í vor og hann skoðaði Heiðdísi. Sagði okkur þá að líffræðilega séð er þessi aðgerð nauðsynleg fyrir hana en svo eru líka mörg börn og unglingar sem þjást virkilega andlega vegna þessa. Það er líka reyndin með Heiðdísi, sérstaklega núna þegar unglingurinn er að brjótast út í henni og útlit skiptir svo miklu máli. Hún fór td. að æfa sund fyrir tveimur árum. Gekk alveg glimrandi vel, enda sundkona mikil og elskar að vera í vatni. Sú þjálfun fékk þó skjótan endi þar sem hún var lögð í einelti og mikið strítt á innföllnu bringunni.

Skvísan er mikill orkubolti og jákvæð og þó hún kvíði vissulega fyrir þessari stóru aðgerð þá hlakkar hún til þegar þetta verður yfirstaðið. 

Meira síðar.

Heiðdís í Disney World

Heiðdís María Wink

 


« Fyrri síða

Um bloggið

Gúnna

Höfundur

Gúnna

 

www.flickr.com/gudmunda

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • 014
  • 014
  • 017
  • 020.CR2
  • 019

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband