10.12.2007 | 01:43
Helgin 8.- 9.des
Dagar nr. 9 og 10 í dvöl okkar á Barnaspítala Hringsins eru nú liðnir. Helgin gekk ágætlega. Það var reglulega minnkuð morfíndeyfingin en afnframt aukið við verkjalyf í töfluformi. Hún fann að sjálfsögðu meira til - eftir því sem deyfing minnkaði. Seinni part sunnudags var svo "leggurinn" dreginn úr bakinu á Heiðdísi. Vei! slöngulaus og naut frelsisins með því að fara í smá gönguferð um húsið með pabba og Elínu. Prófaði stigana, en ég hef svona smá áhyggjur af því hvernig stigarnir heima muni leggjast í hana. Sjálfsagt óþarfa áhyggjur. Allavega gekk þessi prufuferð ágætlega.
Enginn hefur lagst inn á stofuna með okkur síðan unglingurinn var flutt á einkastofu. Þvílíkur munur. Ég gæti haft mörg og löng orð um það sem ég kalla "hönnunarslys" en læt það bíða betri vettvangs. Verð þó að segja að það er með ólíkindum að ekki hafi verið byggður barnaspítali, í upphafi 21. aldarinnar, með einkastofum að megninu til!
Það hefur verið töluverður gestagangur til Heiðdísar um helgina. Nokkrar skólasystur hafa komið, tvær og tvær saman. Svo komu afi Bembi, Heiður og Rúna, afi Jón og amma Gugga og Ásdís og Laufey kíktu á sunnudagskvöld. Þær höfðu meðferðis nýbakaðar súkkulaðibita-smákökur sem Halli hafði bakaðMmmmm. Já, það eru víst að koma jól
Þegar þetta er skrifað er kominn mánudagur. Heiðdís sofnuð í sjúkrarúminu í 10. sinn. Á morgun er heimferð. Þrátt fyrir nokkrar erfiðar stundir hefur allt gengið ótrúlega vel. Mikið óskaplega held ég þó að margir yrðu glaðir ef matseldin yrði hækkuð á örlítið hærra plan hér....jafnvel bara miklu hærra. Heiðdís hefur sjaldnast haft lyst á matnum. Það hefur mikið verið borðað af brauði - og tvisvar pantaðar pizzur. Á laugardagskvöldið sendi hún pabba sinn á MacDonalds og í kvöld fór ég á BSÍ og keypti laxabrauð handa dömunni. Það er "full service" á svæðinu fyrir sjúklinginn!!!
Læt ykkur að fylgjast með hvernig heimferð gekk og batinn gengur.
Magnea og Sandra komu
í heimsókn á föstudagskvöld
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
8.12.2007 | 01:13
Dagur 8 - föstudagur
"Allt tíðindalaust á Vesturvígstöðvunum" Áframhaldandi bati. Búið að minnka morfínskammtinn niður í 4 ml á sólarhring Finnur aðeins meira til og fær verkjalyf reglulega. Ein á stofu aftur í nótt
Reyndar svaf daman til að verða hálf-ellefu í morgun. Var vakin af læknum á stofugangi. Sýnir hversu þreytt og vansvefta hún var orðin eftir undanfarna daga og nætur á "umferðarmiðstöðinni".
Sæl að sinni.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
7.12.2007 | 00:03
Dagur 7 - fimmtudagur
Bara örfá orð til að láta ykkur vita að allt gengur enn vel hjá Heiðdísi. Það var reyndar mjög lítið um svefn sl. nótt - en það var vegna utanaðkomandi truflunar :(
Hún fékk tvær heimsóknir í dag og við fórum í leikstofuna að föndra. Höfum reynt að vera sem mest frammi til að trufla ekki, þar sem Heiðdís er ekki rúmföst. Hún þreytist þó fljótt og þarf að hvíla sig. Í kvöld var svo sambýlingurinn flutt yfir á aðra stofu. Vonum innilega að Heiðdís verði ein á stofu fram að heimferð - sem er enn áætluð á mánudaginn. Feðginin ná vonandi góðum svefni í nótt.
Kærar þakkir til ykkar allra sem hafið heimsótt síðuna og sent góðar óskir og kveðjur. Heiðdís skoðar bloggið alltaf reglulega.
Bless í bili.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
5.12.2007 | 23:40
Hún er 12 ára í dag
Heiðdís hélt upp á afmælið sitt í dag á deild 22D á Barnaspítalanum. Hún er mikið að hressast. í gær losnaði hún við næringuna og á morgun (fimmtudag) verður byrjað að minnka deyfinguna, það er degi áður en upphaflega var áætlað. Þá kemur fljótlega í ljós hversu lengi hún þarf að liggja inni. Allir rosa ánægðir með framvinduna hjá dömunni.
Það er ýmislegt gert til að hafa ofan af fyrir börnunum á deildinni. Í gær kom Óliver trúður (Peggý Helgason) og var mjög gaman að sýningunni hennar. Í dag var bíósýning og töframaður kom í heimsókn, hress og skemmtilegur. Heiðdís er farin að ganga heilmikið sjálf og ýtir lyfjastönginni á undan sér. Svo keyrum við hana líka í hjólastólnum. Það er mikill munur að þurfa ekki að vera bundin við rúmið - sérstaklega núna þegar hún er ekki lengur ein á stofu og mikil "umferð" og "umhverfishljóð". Þessi glæsilega terta hér að ofan var færð Heiðdísi í dag í boði sjúkrahússins. Hún fékk líka gjöf (geisladisk). Alveg hreint yndislegt og kom okkur skemmtilega á óvart. Það var meira að segja smalað í smá hóp af starfsfólki sem söng fyrir hana afmælissönginn..Síðan var að sjálfsögðu öllum á deildinni boðið upp á afmælisköku.
Heiðdís fær fyrstu sneiðina af tertunni
Guðný og Elín komu í heimsókn og amma og afi voru í afmæliskaffi. Tvær skólasystur kíktu líka í heimsókn. Sigga og Íris komu svo eftir kvöldmat. Það var þreytt en sæl 12 ára stúlka sem fór að sofa í sjúkrarúmi að kvöldi afmælisdagsins. Pabbi á bekknum - ("ókunnugt" fólk hinum megin við gardínuna).
Guðný, Elín, Heiðdís og amma Gugga 5. des. 2007
Með Helenu og Signýju og Álfrúnu og Arndísi
Bloggar | Breytt 7.12.2007 kl. 00:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
4.12.2007 | 23:16
Dagur 5
Öll að braggast frökenin. Farin að borða betur og losnar í kvöld við næringuna úr æðinni. Þá er eingöngu einn "leggur" eftir og það er mænudeyfingin. Bjarni kom í dag og er mjög ánægður með hana. Sagði að ekki yrði byrjað að minnka deyfinguna fyrr en á föstudag. Það þýðir að hún kemur líklegast ekki heim fyrr en eftir helgi.
Fékk stofufélaga í kvöld. 16 ára stúlka, mikið slösuð. Það er ótrúlega skrýtið að fólk að 18 ára aldri skuli lagt inn á Barnadeild. Þó lögin segi að það sé barn að þeim aldri held ég að krakkar á aldrinum 16-18 ára ættu ekki að þurfa að liggja á sjúkrastofu með börnum undir fermingu - og öfugt. Meðan ekki er hægt að bjóða upp á einkastofur.
Heiðdís er nú ekkert hoppandi glöð yfir þessum breyttu aðstæðum. Tekur þó öllu með stóískri ró - enda að hoppa yfir á þrettánda árið. Verður 12 ára á morgun. Heldur upp á daginn á sama stað og hún fæddist
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
3.12.2007 | 23:10
Dagur 4 - kvöld
Að velja sér diska í leikstofunni
Heiðdís hefur verið nokkuð hress í allan dag. Fær enn sama skammt af verkjalyfjum og það á ekkert að fara að "trappa" hana niður fyrr en seinna í vikunni. Hún fékk heimsóknir í dag. Amma og afi komu og einnig fjölskyldan af Bárugötunni. Pabbi og Elín komu seinni partinn og við fengum þær fréttir þegar kvöldvaktin mætti að ún þyrfti að skipta um stofu - fara af einkastofu yfir á tvíbýlisstofu!! Við vorum frekar leið yfir þessu öll sömul - sérstaklega þar sem búið var að segja að hún yrði á sömu stofunni allan tímann. Heiðdís tjáði sig nú lítið um málið, en auðséð að henni finnst þetta frekar fúlt.
Við stóðum því í flutningum um tíma á deildinni í dag. Það er enginn annar sjúklingur í hinu rúminu, enn sem komið er. Svona er lífið á sjúkrahúsinu - ekkert við þessu að gera. Mín er alla vega alsæl með að vera komin í tölvusamband við umheiminn og við Elín kvöddum hana á kafi í msn-inu um kvöldmatarleytið. Þau feðgin ætla að gista saman í nótt á nýju stofunni.
Heiðdís, Elín og Bjarki inni á nýju stofunni.
Bloggar | Breytt 4.12.2007 kl. 14:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
3.12.2007 | 11:07
Dagur 4 - morgunn
Heiðdís er miklu hressari í dag. Ekki eins slæmir verkir og aðeins meira þrek. Borðaði reyndar mjög lítið í morgun. Það kemur! Fékk tvo lækna í heimsókn áðan. Allt eðlilegt - og nú á leiðin til bata bara að liggja upp á við. Vonum að það standist. Við erum búnar að fara í heimsókn á 1. hæðina í skólann og leikstofuna. Hún valdi sér og fékk lánaða diska. Í skólastofunni fékk hún krossgátur. Trilluðum svo til baka, þe. Heiðdís í hjólastól og ég ýtti stólnum með annarri og lyfja-súlunni með hinni. Hmmmmkemur allt með æfingunni, verð komin með meiraprófið í svona akstri fljótlega.
Pólski ræstitæknirinn var að störfum þegar komum til baka. Bað hana skúra/þrífa vel gólfið. Ekki skyldi hún eitt orð í íslenskunni - látbragðið kemur sér vel. Heiðdís steinsofnuð. Búin á því eftir brölt morgunsins. Þarf að safna kröftum. Komin með tölvu inn á stofu og getur nú spjallað við vini og vandamenn á msn.
Bless í bili.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
2.12.2007 | 23:17
Dagur 3 - frh.
Dagur að kvöldi kominn. Heiðdís sefur. Hún hefur átt frekar erfiðan dag. Heiður og Rúna komu í heimsókn um hádegið, en Heiðdís gat lítið talað við þær. Þær fóru fljótlega eftir að við Elín komum og buðu þeirri stuttu með sér í bíltúr og á veitingastað! Laufey frænka ætlaði að koma, en ég hringdi og stoppaði þau af. Ekkert vit í að fá heimsókn, þegar maður er ekki alveg með á nótunum. Verkirnir hafa aðeins minnkað, en morfínblandan hefur verið aukin úr 6 ml. í 7 ml. á klst. Engin matarlyst enn aðeins nokkrar skeiðar af súpu í kvöldmatnum. Hefur þó drukkið tvö glös af malti og appelsíni. Hressir bætir kætirJ!
Bjarni læknir kom um kvöldmatarleytið og segir að allt líti vel út og það sé algengt að líðanin sveiflist fyrstu dagana eftir aðgerð. Bara taka verkjalyfin og fara varlega. Það kom líka sjúkraþjálfari tvisvar í dag. Minnti á mikilvægi þess að þjálfa lungun með öndunaræfingum og fara varlega í hreyfingar. Fínt að geta sofið þrátt fyrir verki. Verst að geta ekki borðað. Hún þarf á orkunni að halda en vill ekki einu sinni orkudrykkL Fékk auka verkjalyf um 10 leytið. Mjög þreklítil og slæmir verkir í saumunum.
Okkur Bjarka finnst báðum erfitt að horfa upp á orkuboltann okkar svona veika. Hún sagði við mig í kvöld þegar henni leið sem verst æ, af hverju gat ég ekki bara fæðst venjuleg?
Vonandi að hún verði hressari á morgun.
Með Skottu Lottu kvöldið fyrir aðgerð
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
2.12.2007 | 12:25
Dagur 3
Verkjalyfin fara greinilega ekki mjög vel í magann á Heiðdísi. Hún vaknaði upp kl. 3 í nótt og kastaði töluvert upp. Fyrir utan það náðu þau feðgin að sofa nokkuð vel þar til morgunvaktin mætti og morgunmaturinn. Reyndar rölti mín yfir ganginn um kl. hálf sex í morgun
Broskalla-verkjastikan er í það barnalegasta, þó svo við notum hana í bland þar sem hún hangir upp á vegg í stofunni. Heiðdís er látin segja hvernig verkirnir eru miðað við skalann 1-10. Sérfræðingarnir vilja að það sé ekki mikið meira en 4-5. Í morgun var það 7-8 og því átti að gefa henni extra skammt núna rétt fyrir hádegi. Alls ekkert óalgengt eftir svona aðgerð að gefa þurfi auka skammta fyrstu dagana. Hún hefur enga matarlyst en drekkur. Bað samt um að fá hnetutopp.
Við Elín Katrín erum á leið niður á sjúkrahús og ætlum að kaupa ís handa Heiðdísi á leiðinni. Guðný situr heima og lærir fyrir prófin sem eru að bresta á. Sólin skín hér inn um skrifstofugluggann. Vonandi verður þessi fyrsti sunnudagur í aðventu bjartur og fagur og léttari fyrir litla ljósið okkar en gærkvöldið.
frh. í næstu færslu.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
1.12.2007 | 23:52
Dagur 2
Hetjan okkar litla stendur sig SVO vel. Hún er með stanslausar kvalir, en fær morfín og önnur verkjalyf til að deyfa þær. Fyrsta nóttin gekk svo sem ágætlega miðað við aðstæður. Það er alltaf verið að bæta í leggina og athuga með líðan, þannig að eins og allir sem dvalið hafa á sjúkrahúsi í einhvern tíma vita, er aldrei alveg ró og friður. Við náðum reyndar báðar að sofa aðeins í morgun, eftir að Heiðdís hafði vaknað með mikla ógleði og kastaði upp í kjölfarið.
Bjarki og Elín komu um ellefuleytið og stuttu síðar fengum við sjúkraþjálfara í heimsókn. Hún kenndi Heiðdísi hvernig hún á að bera sig að við að setjast upp og standa á fætur. Það má engin beygja eða hnykkur koma á líkamann. Mín dama settist svo upp - stóð á fætur og rölti fram á klósett, sem er hinum megin á ganginum - (eiginlega það eina sem hægt er að setja út á deildina, að ekki sé wc á herberginu) - með alla vökvapokana og flöskurnar hangandi í stöng í eftirdragi. Þvílíkur lúxus sem henni fannst þetta, að geta loks pissað í klóið en ekki "bekken". Hún hefur svo endurtekið þetta nokkrum sinnum í dag. Amma Gugga og afi Jón komu tvisvar í stutta heimsókn og Halli og Ásdís komu líka.
Allt þetta brölt á skvísunni er talið mjög jákvætt og þegar sjúkraþjálfarinn kom í seinni heimsókn dagsins, gaf hún henni 10 í einkunn fyrir dugnað En stundum þurfa litlar hetjur að slaka á. Með kvöldinu voru verkirnir orðnir mjög slæmir og öndunin erfið. Hún fékk auka skammt af morfíninu og var hlustuð og skoðuð af lækni á vakt. Allt í góðu með lungun, sem betur fer. Vonandi bara að hún nái að sofa vel og safna kröftum í nótt. Við Elín heima. Pabbi hjá Heiðdísi.
Nýjar myndir í albúmi.
Bloggar | Breytt 2.12.2007 kl. 12:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Um bloggið
Gúnna
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar